Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2015

Gengið á Þórðarhöfða

Laugardaginn 12. júní lagði vaskur 12 manna hópur í gönguferð um Þórðarhöfða. Ganga dagsins var hringum um Þórðarhöfðann, tæpir 14 km. Þegar búið var að sameinast í bíla á Sauðárkróki og Hofsósi lá leið út á Höfðamöl þar sem gangan byrjaði. Auðveldara er að ganga Höfðavatnsmegin á mölinni því þar er gott göngufæri. Þegar komið var að Höfðanum lá leiðin upp Réttarnesið meðfram strandlengjunni með Höfðavatn á vinstri hönd. Við Gerðisvík má enn sjá húsatóftir og grasbala og fallegt nes gengur út á vatnið. Áfram var gengið uns komið var að Búðarbrekkum og sagðar sögur af huldufólki tengdu staðnum. Áfram var haldið sem leið lá upp á Herkonuklett og áð við vörðuna. Herkonuklettur er ca. 202 m. hár klettastapi og sést mjög vel til Drangeyjar og Málmeyjar ofan frá honum. Gert var nestisstopp í láginni fyrir neðan Herkonuklett og talað um Gretti sterka og raunir hans í Drangey sem og sögð þjóðsagan af Drangey. Áfram var haldið sem leið lá að Kögri og þurftu göngufólk að vara sig á að fara ekki of nálægt brúnum því þær voru á sumum stöðum svikular. Afar fallegt er um að lítast í Kaplavík og á Kögri en mikið af fallegum stuðlabergsmyndum er í hömrunum þar. Í kaffipásunni við Kaplavík var fjallað um Málmey m.a. huldufólksaga sögð, sagan af Málmeyjar-Guðrúnu og um Björn bónda sem missti konu sína til tröllskessanna í Ólafsfjarðarhömrum. Hringnum var svo lokað þegar við gengum svo niður í Réttarnes aftur, út mölina og í bílana.

Jóhanna Traustadóttir

 

Hrolleifshöfði

Fararstjórarnir Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Sveinbjörg Traustadóttir

20150718_144823_resized

Maðurinn í bláa jakkanum heitir Trond Olsen og skipar hann ferðanefnd F.S. ásamt fararstjórunum

20150718_171618_resized

Straumnesviti á Hrolleifshöfða

 

Átta manna hópur tók þátt í ferð Ferðafélags Skagfirðinga laugardaginn 18. júlí. Fararstjórar voru Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir og Kristín Sigurrós Einarsdóttir. Þrátt fyrir að eyja- og fjallasýn hefði mátt vera betri hreppti hópurinn ágætis veður, hægur vindur var á köflum, um 10 stiga hiti og nánast þurrt, súldaði aðeins öðru hvoru. Gengir voru um 17 kílómetrar og var samanlögð hækkun um 200 metrar. Með góðum nestis- og sögupásum tók ferðin um átta tíma. Það var notalegt að koma í heita pottinn við sundlaugina á Hofsósi að henni lokinni.

Hrolleifshöfði er vestan Fells í Sléttuhlíð, sem er um 170 m hátt fell við samnefndan bæ. Margt ber fyrir augu á þessari leið, m.a. fallegt stöðuvatn, Kappastaðavatn, víkur og vita. Nokkur býli voru þarna fyrrum, en hið síðasta, Melar, fór í eyði um 1980. Má sjá tóftir og rústir þessara býla, en ekki eru nöfn þeirra allra þekkt. Svæðið er gróðursælt og tölvuert fuglalíf. Þátttakendur voru ánægðir með ferðina og má segja að þessi falda náttúruperla hafi komið skemmtilega á óvart.

 

Gönguferð um Laxárdal ytri

Háifoss á Laxárdal ytri20150725_154514

Farin var gönguferð á vegum FS laugardaginn 25. júlí s.l. Lagt var af stað frá Illugastöðum á Laxárdal. Gengið var suður Laxárdalinn að Háafossi, þaðan áfram til suðurs eftir Skálárhnjúksdal og meðfram ánni að Trölla, skála FS.  Loks var gengið niður Kálfárdalinn til byggða. Á leiðinni var margt að sjá, tóftir eyðibýla, fallegir fossar og náttúra. Gengið var undir Tröllafoss.  Myndin að ofan til vinstri sýnir Háafoss. Til hægri er mynd af þátttakendum sem voru alls 14.

ÁG