Dagskipt færslusafn: 22. ágúst, 2016

Viðhaldsferð í Hildarsel

Laugardagurinn 20. ágúst 2016 hafði fyrir löngu verið tekinn frá til viðhaldsferðar í Hildarsel.  Í fyrra haust stóð til að mála skálann að utan en rigning og súld komu í veg fyrir það. Því var ákveðið að fara nú frameftir í ágúst mánuði í von um hagstæðari veður. Það gekk eftir. Lagt var af stað á laugardagsmorgun og ekið í striklotu fram í Bústaði þar sem við áttum kaffiboð hjá Sigríði sem er vildarvinur og sérlegur fulltrúi Ferðaféagsins í Austurdalnum. Eftir kaffi og kökur hjá Sigríði drifum við okkur fram á dal. Bifreið Guðmundar Hjálmarssonar passaði akkúrat inn á Monikubrúna, engu mátti muna. Lítið var í ánum og gekk ferðin vel. Á undan  höfðu Björn Svavarsson og Ebba Kristjánsdóttir ekið á fjórhjóli fram eftir. Þegar við komum að skálanum voru þau á fullu við þrif og aðra vinnu. Í ferðinni voru Rúnar Pálsson, Guðmundur Hjálmarsson, Sigurþór Jónssoni, Hjalti Pálsson og undiritaður.  Bornar voru tvær umferðir af hvítri olíu á útveggina. Við skoðun kom í ljós að krossviður á suðurstafninum er orðinn lélegur og stefnt er að því að klæða stafninn fljótlega.  Fluttir voru 4 gaskútar frameftir. Leiðangursmenn voru sammála um að endurnýja gler í gluggum næsta haust og skipta þá út öllum dýnum sem bera merki 25 ára notkunar.