top of page

Fyrirspurnir

Hægt er að senda okkur almenna fyrirspurn, einfaldast er að okkur póst á ffs@ffs.is eða í gegnum fésbók.
Við svörum eins fljótt og auðið er. 

Stjórn

Ferðafélag Skagfirðinga var formlega stofnað þann 27. desember 1970 í gamla bæjarþingsalnum við Kirkjutorg. Alls voru 22 mættir á stofnfundinn og að auki sendu 10 manns umboð. Því voru stofnfélagar 32 talsins.

Núverandi (2020) stjórn félagsins er: Sigríður Inga Viggósdóttir (formaður), Vala Hrönn Margeirsdóttir (gjaldkeri) Hallbjörn Björnsson (ritari), Kári Heiðar Árnason (meðstjórnandi), Broddi Reyr Hansen (meðstjórnandi).

Saga

Saga Ferðafélags Skagfirðinga  er tekin saman af Hjalta Pálssyni og var flutt á afmælissamkomu félagsins 27. desember 2000.

Upphaf Ferðafélags Skagfirðinga má rekja til byggingar brúarinnar á Jökulsá eystri uppi á Hofsafrétt sumrin 1969-1970. Ingólfur Nikódemusson hafði látið sig dreyma um brúargerð á Eystri-Jökulsá. Hann komst að samkomulagi við Vegagerðina að fá einn hlutann af gömlu brúnni á Jökulsá á Sólheimasandi sem byggð hafði verið í níu 22 metra löngum einingum sem tengdar voru saman á stöplum. Eftir að ný brú var byggð þar lágu þessir brúarhlutar á sandinum. Í nóvember 1968 fóru Ingólfur Nikódemusson, Ingólfur Sveinsson, Friðrik Jónsson og Sigurþór Hjörleifsson á jeppum suður að Jökulsá á Sólheimasandi og unnu þar tvo daga við að hluta sundur brúna og gera hæfa til flutnings. Síðan komu þeir suður á þrem vörubílum: Guðmundur á Hafgrímsstöðum, Doddi í Stóragerði og Hreinsi Búbba og tóku
partana upp á pall. Á Selfossi var Steinunn Hafstað frá Vík með rekstur Hótelsins og bauð hún öllum hópnum í mat. Gist var í Reykjavík um nóttina, en daginn eftir var farið norður. Upphaflega stóð til að fara með brúarhlutana fram á eyrarnar hjá Hofi í Vesturdal en þegar til kom reyndist svo snjólaust að ákveðið var að reyna að komast með flutninginn upp Þorljótsstaðafjallið og það tókst og var þá ekki staðar numið fyrr en komið var á leiðarenda að fyrirhuguðu brúarstæði. Þetta var um mánaðamótin nóvember/desember 1968.

skalinn-trolli-fluttur-gamlar-myndir.jpg


Næstu tvö sumur voru menn meira og minna flestar helgar uppi á fjöllum við brúarsmíðina og hinn 5. september 1970 var brúin loks vígð af séra Gunnari Gíslasyni í Glaumbæ.

Í hófi sem haldið var á eftir í skálanum í Laugarfelli fóru af stað umræður um að stofna þyrfti ferðafélag og með því að menn voru orðnir ákafir og heitir í umræðum var drifið í að kjósa undirbúningsnefnd til að hrinda þessu máli í framkvæmd og eftir það var ekki til baka snúið. Eftirtaldir voru kosnir til undirbúnings: Ingólfur Nikódemusson, Finnbogi Stefánsson, Friðrik Jónsson, Ingólfur Sveinsson, Sigurþór Hjörleifsson, og laugardaginn 12. desember komu þeir saman til undirbúningsfundar þar sem undirbúnar voru tillögur að lögum félagsins og formlegur stofnfundur ákveðinn sunnudaginn 27. desember 1970.

 

Fyrirhugaður fundur var síðan haldinn á tilsettum tíma í bæjarþingsalnum á Sauðárkróki. Var þar mætt undirbúningsstjórnin ásamt 17 öðrum Skagfirðingum. Auk þess komu umboð frá 10 öðrum sem óskuðu inngöngu í fyrirhugað ferðafélag. Í fyrstu stjórn félagsins voru kjörnir: Ingólfur Nikódemusson með 19 atkvæðum, Sigurþór Hjörleifsson með 18 atkvæðum. Haukur Hafstað með 17 atkvæðum, Finnbogi Stefánsson með 11 atkvæðum og Friðrik Jónsson með 9 atkvæðum. Til vara voru Ingólfur Sveinsson, Þorvaldur Óskarsson og Pálmi Jónsson. Í ársbyrjun var síðan sett á fót ferðanefnd ásamt fjáröflunar- og skemmtinefnd.

Á fyrsta aðalfundi félagsins sem haldinn var 4. mars 1972 kom fram að þá væru félagar orðnir samtals 145 auk 24 fjölskyldufélaga. Sumarið 1971 höfðu verið farnar 6 ferðir á vegum félagsins og þátttakendur orðið samtals 111. Ingólfur formaður greindi þá einnig frá könnun sinni á landinu norðan Hofsjökuls milli Hveravalla og Jökulsár en á stofnfundinum hafði einmitt verið tilkynnt um gjöf þeirra Björns Egilssonar frá Sveinsstöðum og Friðriks læknis til sæluhúsbyggingar norðan Hofsjökuls.

 

Næstu árin snerist starfsemi félagsins fyrst og fremst um ferðir og árlega kemur fram að verið sé að leita að hentugu skálastæði norðan Hofsjökuls. Ferðanefndin virðist starfa og árlega eru farnar nokkrar ferðir. Dauft virðist hins vegar hafa verið yfir fjáröflunar- og skemmtinefndinni.

skalinn-thufnavollum-fluttur-gamlar-mynd

Fyrsta framkvæmd félagsins var síðan bygging ferðaskála í Lambahrauni upp við Hofsjökul. Á aðalfundi 1976 er loks komin ákvörðun um staðarval og þá er kosin þriggja manna byggingarnefnd. Um sumarið voru steyptar undirstöður að skálanum. Ingólfur Nikódemusson hóf að safna byggingarefni og vinna það á verkstæði sínu, en lítið var unnið árið 1977. Árið 1978 var skálinn gerður fokeldur og formaðurinn gaf nákvæma skýrslu um vinnu við skálann á aðalfundi 1979. Alls höfðu þá 15 manns unnið samtals 1019 tíma við skálann, þar af höfðu 247,5 tímar verið unnir í byggð en 745,5 á fjöllum, akstur og ferðir ekki meðtaldar. Og samkvæmt upplýsingum Sigurþórs í Messuholti voru bitarnir undir skálanum gamlir og sögufrægir því þeir eru úr Þverhúsinu svokallaða á Sauðárkróki, sem rifið var laust fyrir 1950.

Friggi Nikk hefur gefið ýmsar upplýsingar um starfsemi félagsins og byggingar á vegum þess og til að hressa upp á frásögnina tek ég orðin úr hans munni um stund: ,,Það var víst helgina eftir verslunarmannahelgi 1978, að við leggjum af stað með Gvendi í Tungu á vörubíl alveg þrællestuðum af efni í skálann, og í þessari fyrstu ferð var Ingólfur Nikk og Lóli og ég og að ég held Ingólfur Sveins. Þá reisum við grindina. Þarna vorum við Ingólfur Nikk. síðan hverja helgi fram í miðjan október. Helgarnar voru stundum langar. Við fórum stundum um hádegi á föstudag og einu sinni komum við heim á miðvikudagskvöld. Þá vorum við bara tveir og bjuggum fyrst í tjaldi, en fljótlega vorum við búnir að gera forstofuna fokhelda og lágum þar á sandinum. Það var oft kalt. Þeir voru lélegir svefnpokarnir þá. Um haustið tókst okkur að loka skálanum, en enga rafstöð höfðum við þarna og ekkert rafmagn, en sumarið eftir eignaðist ég lítinn mótor og þá notuðum við rafmagn við að pússa gólfið.

Sumarið 1979 var ekki fært uppeftir fyrr en komið var langt fram í júlí. Það var voðalegt kuldavor og sumar. Þá held ég hafi ekki verið farnar nema tvær vinnuferðir. Svo voru farnar einhverjar ferðir 1980 og þá held ég Ingólfur hafi lýst því yfir í gestabók að skálinn væri formlega tekinn í notkun.” Samkvæmt þessu varð Ingólfsskáli 20 ára á þessu ári, en reyndar lýsir formaður því ekki yfir svo að bókað sé fyrr en í aðalfundargerð félagsins 1984 að skálinn hafi formlega verið tekinn í notkun sumarið áður, eða 1983, og enn væri þó eftir lítilleg vinna við hann.

Á aðalfundi félagsins vorið 1981 var einróma samþykkt að nefna skálann Ingólfsskála til heiðurs formanninum. Eftir þessa framkvæmd færðist deyfð í starfsemina. Ferðir á vegum félagsins féllu niður flestar, jafnvel aðalfundir. Á þessum árum var þó oftar en einu sinni bókað í fundargerðum samvinna við Ferðafélag Svarfdæla um byggingu skála á Tungnahryggsjökli og stjórninni heimilað að leita eftir eignaraðild að skálanum og að leggja fram allt að 3000 nýkrónur og aðstoð við flutning. Svo fór að félagar í Ferðafélagi Skagfirðinga tóku að sér að koma þeim skála á sinn stað og var hann dreginn þangað upp á sleða með jarðýtu fyrir og var sá leiðangur gerður í mörgum áföngum en á leiðarenda var skálinn kominn kl 9 að kvöldi laugardagsins 6. mars árið 1982. Aldrei kom til þess að félagið legði peninga í þennan skála utan að það á hluta í kamrinum sem settur var niður síðar.

Í ársbyrjun 1984 vildi Ingólfur Nikódemusson ekki gefa kost á sér lengur til formennsku í félaginu og var þá kosin ný stjórn. Sigurþór Hjörleifsson í Messuholti tók við formennskunni. Þá var allt komið á fullt með nýja skálabyggingu og er nú rétt að leita aftur í smiðju Frigga Nikk: ,,Um þetta leyti erum við farnir að vera dálítið mikið á sleðum og fórum þá oft í Vesturfjöllin. Þá var oft stoppað á hólnum við Tröllána og alltaf talað um að hér ætti að koma hús. Svo er búið að tala um þetta lengi og loks ákveðið að ráðast í byggingu skálans. Við gröfum fyrir staurum í undirstöðu sumarið 1983. Erum svo að dunda við að smíða skálann niðri í vegagerðarbragganum um veturinn. (Nú verð ég að skjóta inn í frásögn Frigga, að ég spurði hann hvort það hefði ekki verið aðallega hann sjálfur sem smíðaði Trölla. Og Friggi svaraði þá af sinni alkunnu hógværð:) Mér skilst að ég hafi átt jafnmarga tíma við þá smíði og allir hinir til samans. Eins var með Ingólfsskála fyrir utan Ingólf sjálfan. Ingólfur vildi aldrei tala um sína tíma, en hann skráði alla aðra. Sjálfsagt hefur hann skráð sig líka þó að ég fengi aldrei að heyra það.”

Hinn 10. mars 1984 var skálinn fluttur á sleða með jarðýtu frá Búnaðarsambandinu upp Kálfárdal og honum komið á undirstöður um kvöldið. Allt að 30 manns voru við flutninginn þegar mest var um daginn. 10 manns gistu í skálanum um nóttina og daginn eftir var gengið frá og hlaðið grjóti að undirstöðum hússins. Farið var í samstarf með skátum. Þeir höfðu lagt til 50.000 krónur í peningum og eitthvað smávegis í vinnu. Gerður var samningur við þá 1985 um að þeir fengju 1/8 eignarhlut í skálanum, en síðar mun Ferðafélagið hafa yfirtekið hann með öllu. En nú var kominn virkilegur framkvæmdahugur í félagsmenn. Farið er að ræða um samstarf við landeigendur og upprekstrarfélag um skálabyggingu í Austurdal framan Tinnár og brúargerð yfir Fossá á Ingólfsskálaleið.

 

Og nú er besta að láta Frigga Nikk segja aftur frá: ,,Þetta var ákveðið haustið 1985 þegar við skoðuðum brúarstæðið. Bragi Þór kom síðan uppeftir og gerði mælingar og setti niður stikur. Svo var byrjað sumarið 1986. Við vorum mikið í þessu ég og Sóri. Þarna þurfti mikið að sprengja og ég var með sprengjuleyfi (og til að fyrirbyggja hugsanlega misskilning þá er hér átt við dínamitsprengingar) Stöplarnir voru steyptir um sumarið og brúin sett á. En svo mistókst steypan í vestari stöplinum og það fór þó nokkur hluti sumarsins í að gera við það. Það hafi farið svo mikið grjót í fyrstu steypurnar ofan á sökkulinn að það hafði ekki fengið almennilegan binding.

Við Ingi Sighvats vorum þarna helgi eftir helgi að mölva steypuna með meitli og hamri og setja síðan í þetta aftur Toroviðgerðarefni. Ég held að það hafi tekist mjög vel. Brúin var síðan vígð seinustu helgina í ágúst 1987. Þarna lögðu margir hönd á plóginn og fengust ríflegir styrkir svo að kostnaður varð enginn fyrir félagið.”Fossáin gat oft orðið alófær. Eitt skiptið þegar við Sóri vorum þarna uppfrá einbíla þá kolfesti hann Nissanbílinn í ánni á bakaleiðinni. Hann var með kerru aftan í. Mér leist ekkert á að fara yfir og hefði ekki þorað, en Sóri lét vaða og komst upp á bakkann með framhjólin. Bíllinn var það þungur að hann hékk þarna á bakkanum en kerran hvarf auðviðað eftir pínu stund og svo beljaði áin bara upp á pall. Við komumst upp á þurrt og náðum öllu dóti úr bílnum og færðum upp á bakkann, en útlitið var ekki gott. Við vorum dálítið bjargarlausir og ég var heldur betur farinn að kvíða því að ganga alla leið til byggða.

Ég hafði skilið bílinn minn eftir í Messuholti og sagði Herði og Önnu Siggu að ég væri að fara frameftir með Sóra og mundi skilja bílinn eftir í Messuholti og þau mættu taka hann ef þau langaði til að fara eitthvað. Svo segir Hörður við Önnu Siggu á sunnudeginum. ,,Eigum við ekki að fara á bílnum og vita hvað kallafíflin eru að gera þarna uppfrá.“ Jú, hún var til í það og þau tóku krakkana með og fóru uppeftir. Það eru því ekki liðnar nema svosem 10-15 mínútur þar sem við erum að vafra um kringum bílinn og kvíða fyrir göngunni miklu, þegar þau birtast. Hörður náði svo að rykkja bílnum upp og heim komumst við farsællega.”

En nú var röðin komin að Hildarseli. Málið var mörg ár í undirbúningi og m.a. vegna þessa að félagið slapp svo vel fjárhagslega frá Fossárbrúnni var ákveðið að leggja í skálabyggingu frammi í Austurdal og ákveðinn staður nokkrum kílómetrum framan við Tinná á grundum Hildarsels. Bragi Þór Haraldsson teiknaði skála með 16 kojum og sumarið 1989 var tekinn grunnur að húsinu. Þar sem ákveðið var að byggja þenna skála í samstarfi við landeigendur og Akrahrepp var ljóst að byggingin yrði ekki unnin með sama hætti og aðrir skálar félagsins, þ.e. í sjálfboðavinnu, og varð niðurstaðan að Trésmiðjan Ýr tók að sér smíði hússins. Var það flutt í flekum á dráttarvélum með þrem vögnum dagana 23. og 24. ágúst 1990. Á ýmsu gekk á leiðinni, festum og veltum, en komið var á áfangastað kl 10 að kvöldi seinni flutningsdagsins. Laugardaginn 25. ágúst var húsið reist og sunnudaginn eftir var glerjað í glugga og þakið pappaklætt og járnað en svo þegar menn ætluðu heim á sunnudagskvöldið var Ábæjaráin með öllu ófær bílum og urðu byggingarmenn að ganga þar frá þeim og plampa alla leið niður að Bústöðum.

Næstu þrjár helgar var farið í vinnuferðir frameftir og gengið frá húsinu. Eignaskipting skálans er sú að ferðafélagið á helming skálans, Akrahreppur á fjórðung og landeigendur fjórðung. Nú var mönnum enn betur ljóst hvaða farartálmar Ábæjará og Tinná geta verið. Göngubrúin á Ábæjará gerði mönnum kleift að komast til byggða frá byggingu Hildarselsskála og sú umræða sem verið hafði um að gera göngubrú á Tinná varð áleitnari. Bragi Þór gerði mælingar og athuganir sumarið 1993 og ákveðið var að ráðast í verkefnið. Brúarefni var flutt fram í Austurdal seint í september 1994. Staurarnir í burðarvirkið voru fluttir á bílum fram í Skatastaði og dregnir þar yfir Jökulsána og þaðan dregnir á dráttarvélum fram að Tinná. Annað brúarefni var selflutt á kerrum yfir Monikubrúna. Aðra helgi í október var byrjað að vinna við brúarsmíðina og unnið föstudag, laugardag og sunnudag og verkinu lokið á einni helgi. Þar með var mikill sigur unninn.

Þá er að geta síðustu stórframkvæmdar félagsins, byggingar Þúfnavallaskála. Lengi hafði verið hugur á að koma upp skála frammi í Víðidal og jafnvel komið fram hugmyndir um samstarf við Húnvetninga um skálabyggingu í Litla-Vatnsskarði eða þar um kring. Á árinu 1994 var farið að vinna alvarlega að málinu og raunar má segja að málið hafi farið af stað af fullum krafti áður en stjórn félagsins fékk nokkuð að vita. Á vordögum 1994 var verið að byggja sólpall við Trölla og komu þá nokkrir ábúðarfullir sleðamenn þar við á leið sinni fram
á Víðidal og voru að leita að skálastæði.

Um sumarið voru flutt undirstöðutré á bílum vestur í Gyltuskarð og þeim velt niður, síðan fengnir hestar frá Kimbastaðabræðrum og trén dregin fram að skálastæðið sem valið hafið verið á móti Litla-Vatnsskarði skammt sunnan við þar sem býlið Þúfnavellir hafði verið til forna. Grafið var fyrir undirstöðum um sumarið og hinn 12. desember kom stjórn ferðafélagsins saman og samþykkti að ráðast í byggingu skálans. Magnús Ingvarsson hjá trésmiðjunni Eik tók að sér stjórn byggingarinnar og var þegar hafist handa við efniskaup og smíði grindar en fyrirmynd hússins var sumarbústaðurinn Nátthagi, svokallað A-hús, sem þeir höfðu smíðað og settur var niður frammi í Vík Í janúar 1995 voru smíðaðar sperrur og stafnar inni á verkstæðinu en laugardaginn 4. febrúar komu saman 15-20 ferðafélagar og húsið var reist á lóðinni fyrir utan og gert fokhelt um kvöldið. Síðan var farið í innréttingar næstu helgar og sléttum 20 dögum síðar, laugardaginn 24. Febrúar, var skálinn tilbúinn og hafður til sýnis. Það gekk í meira basli að komast á áfangstað. Skálinn var hífaður upp á sleðann gamla og góða sem enn einu sinni hafði nú verið stækkaður og breyttur fyrir nýjan flutning. Þar stóð hann lengi upp við Skarðarétt og beið færis. Sunnudaginn 26. mars var lagt af stað með ækið en færið var ómögulegt og ýtan dró illa í snjónum svo að numið var staðar utan við Kálfárdal og ákveðið að leita lags síðar, en kamarinn fór alla leið á skíðakerru aftan í snjóbíl björgunarsveitarinnar.

Aftur var reynt föstudaginn 31. mars og komist eitthvað upp fyrir Kálfárdal, en svo gefist upp. Sunnudaginn 2. apríl komust menn 100 metra í viðbót en urðu þá að gefast upp vegna þess að snjórinn varð allur sem mjöl þegar komið var niður úr skelinni. Það var ekki fyrr en sunnudaginn 9. apríl eftir kosningavökunótt að skálinn komst alla leið á ákvörðunarstað — og gekk þá loks vel. Formlegur vígsludagur skálans var svo haldinn á Þúfnavöllum laugardaginn 22. apríl með fagurri samkomu, skemmtidagskrá og helgihaldi. Síðan þetta var hefur starfsemi félagsins að mestu snúist um viðhald og umhirðu þessara skála og að njóta og nýta þessar eignir. Miklu hefur verið kostað til með búnað og viðhald skálanna enda eru þeir hinir vistlegustu og höfundum sínum og eiganda til sóma.

Sérstaklega hafa Þúfnavallaskáli og Trölli notið hylli og eru og mikið notaðir af sleðamönnum á veturna en göngufólki á sumrin. Árið 1992 var sett upp raflýsing með sólarrafhlöðum í Ingólfsskála. Trölli var klæddur utan með Steni-klæðningu árið 1999 og í apríl 2000 var sett upp raflýsing frá sólarrafhlöðum í Trölla og Þúfnavallaskála.

Þó er aldrei svo að ekki sé einhverju ábótavant. T.d. hefur um 20 ára skeið verið rætt um erfiðleika á vatnsöflun í Ingólfsskála. Þetta kom síðast til umræðu á stjórnarfundi s.l. vetur. Þá var bókað eftirfarandi í fundargerðina: ,,Umræða kom upp um vatnsleysi í Ingólfsskála og að þar mundi hvergi finnast almennilegt neysluvatn. Málinu slegið á dreif þar eð ljóst væri að í Ingólfsskála væri aldrei drukkið vatn.” Af þessu ágripi sem hér hefur verið flutt er ljóst, að Ferðafélag Skagfirðinga hefur á þessum 30 árum komið ótrúlega miklu í verk. Það á nú og rekur fjóra ferðaskála, hefur staðið að smíði tveggja brúa og var önnur stórsmíði, en sú þriðja var unnin af félagsmönnum áður en félagið sjálft var stofnað. Auk þess hefur félagið komið að smærri verkefnum. Þetta hefur kostað félagið furðulitla peninga. Tilvist og árangur félagsins hefur byggst á ötulli forystu félagsins og sjálfboðavinnu sem í sumum tilfellum hefur gengið langt út fyrir alla sanngirni.

 

Ég held að á engan sé hallað þótt nafn Friðriks Jónssonar sé nefnt þar efst á blaði. Ég er sannfærður um að félagið væri ekki þar statt í dag sem það er nú eftir að hann hefur gegnt þar samfellt störfum gjaldkera frá árinu 1984 er hann kom aftur inn í stjórnina. Sterkur kjarni hefur ávallt mótað starfsemi félagsins og ýmsir komið þar til stjórnarsetu, sumir skamman tíma en margir til fjölda ára. Eftirtaldir hafa gegnt formennsku í félaginu:

Ingólfur Nikódemusson 1970-1984 Sigurþór Hjörleifsson 1984-1988 Ingvar Sighvats 1988-1999 Ágúst Guðmundsson frá 1999 Það getur vel verið að til Ferðafélags Skagfirðinga hafi verið stofnað í ölæði og hrifningarvímu eftir vígslu brúarinnar á Jökulsá austari 1970, en það hefur a.m.k. ræst ótrúlega vel úr félagsskapnum. Á þessum tímamótum leyfi ég mér að færa þakkir öllum sem lagt hafa Ferðafélagi Skagfirðinga lið og óska þess að því auðnist að starfa af krafti á næstu öld, félagsmönnum sínum og öðru áhugafólki um útivist og ferðalög til ánægju og hagsbóta.

Heimildir: Gjörðabók Ferðafélags Skagfirðinga 1970-2000. Viðtal við Friðrik A. Jónsson frá nóvember 2000. Dagbækur höfundar

Lög Ferðafélags Skagfirðinga

Lög Ferðafélags Skagfirðinga


1. gr.

Félagið heitir Ferðafélag Skagfirðinga, skammstafað F.S. og er deild
í Ferðafélagi Íslands. Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að ferðalögum og gönguferðum um
byggðir og óbyggðir landsins með áherslu á Skagafjörð og
nágrenni. Kynna eftir föngum gróður, dýralíf, jarðfræði og sögu
staða og svæða sem ferðast er um. Gangast fyrir aukinni
ferðamenningu og bættri umgengni á áningarstöðum. Beita sér fyrir
viðhaldi leiða um óbyggðir og merkingu þeirra. Rekstur, viðhald og
endurbætur á skálum félagsins.

3. gr.

Félagar geta allir orðið og er félagsgjald það sama ár hvert og hjá
Ferðafélagi Íslands. Stjórn félagsins getur þó ákveðið annað.

4. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum, kjörnum á aðalfundi
félagsins ár hvert. Stjórnin skiptir með sér verkum (formaður,
varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi). Stjórn félagsins
stýrir félaginu á milli aðalfunda og ákveður árgjald. Stjórnin skal
leitast við að gefa árlega út fréttabréf, eitt eða fleiri eftir atvikum.
Haldin skal fundagerðabók og skráð í hana það sem gerist á
stjórnar- og aðalfundum.

5. gr.

Ferðanefnd félagsins, þriggja manna, skal kjörin á aðalfundum.
Hlutverk nefndarinnar er að bjóða árlega upp á skipulagðar göngu-
og bílferðir eða annan ferðamáta eftir því sem tækifæri gefast til.

6. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir 1. nóvember ár hvert. Til
aðalfundar skal boða með 7 daga fyrirvara með greinilegum
auglýsingum í blöðum eða í bréfi til félagsmanna. Á aðalfundi ræður
einfaldur meirihluti greiddra atkvæða. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa
félagar í FS sem greitt hafa félagsgjald. Sérstakan félagsfund skal
halda, komi fram skrifleg ósk um það til stjórnar frá 25
félagsmönnum.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
2. Lagður fram endurskoðaðr ársreikningur.
3. Kjörin stjórn samkvæmt 4. gr. félagslaganna.
4. Kjörnir tveir endurskoðendur.
5. Ferðanefnd kjörin.
6. Önnur mál.

7. gr.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta
fundarmanna. Skal þess getið í fundarboði.

8.gr.

Verði félaginu slitið, skulu eigur þess ganga til Ferðafélags Íslands.

Lögin þannig samþykkt á aðalfundi þann 3. desember 2010. FS hefur
kennitöluna 631283-0209

gönguferðir - útivist - gisting

bottom of page